Bálstofan
Bálstofan í Fossvogi hefur verið rekin frá árinu 1948 en í henni eru tveir rafkyntir líkbrennsluofnar. Það var Bálfararfélag Íslands sem á sínum tíma hafði forgöngu um kaup og uppsetningu búnaðarins en félagið var stofnað 1934 og voru jarðneskar leifar Gunnlaugs Classen formanns félagsins þær fyrstu sem brenndar voru í ofnum Bálstofunnar.
Bálstofan í Fossvogi er rekin af Kirkjugörðum Reykjavíkur og er þjónustan gjaldfrjáls fólki búsettu á Íslandi. Bálstofan er opin öllum óháð trú eða lífsskoðun.
Bálför
Við líkbrennslu eða bálför er niðurbrot mannslíkamans það sama og þegar jarðað er í kistu. Sömu efnahvörfin eiga sér stað en eðli málsins samkvæmt gerist niðurbrotið miklu hraðar við brennslu. Við bálför er kista hins látna sett inn í heitan líkbrennsluofn og tendrast hún eldi vegna timbursins í kistunni. Að tveim tímum liðnum er kista og líkami hins látna orðin að ösku sem síðan er látin kólna og að endingu sett í merkt duftker. Askan sem eftir stendur að aflokinni líkbrennslu er að jafnaði um fjórir lítrar.
Af því leiðir að enginn munur er á útför einstaklings hvort sem um er að ræða bálför eða jarðarför. Ef þess er óskað er hægt að brenna fyrir útför en gott er að vita að biðtími eftir brennslu er að jafnaði 7-10 dagar.
Aðstandendur ákveða svo hvar og hvenær duftkerið er grafið, sem skal gerast innan þriggja mánaða.
Frá andláti til brennslu
Þegar einstaklingur deyr t.d. á spítala þá er lík hans sótt í líkhús spítalans af útfarastofu og flutt í líkhús við Bálstofu í Fossvogi. Þar er líkið lagt í kistu og farið með kistulagningabæn og síðar útför. Útför fyrir bálför er að öllu leyti eins og venjuleg útför nema að kistan er ekki borin til grafar. Eftir útför fer kistan aftur í líkhúsið Fossvogi. Ef ákveðið hefur verið að brenna skuli viðkomandi, þurfa öll skjöl að liggja fyrir áður en bálför getur farið fram.
Dreifing ösku utan kirkjugarða
Heimilt er að dreifa ösku látinna utan kirkjugarðs hafi það verið ósk hins látna.
Skilyrði fyrir dreifingu á ösku
Ákveðin skilyrði eru fyrir því að dreifing á ösku megi fara fram:
- Aðeins má dreifa ösku yfir öræfi og sjó
- Ösku má aðeins dreifa á einum stað
- Ekki má merkja eða auðkenna stað sem ösku var dreift á
Ef dreifa á ösku á landi getur afgreiðsla umsókna tekið nokkurn tíma þar sem það getur þurft að leita upplýsinga um staðhætti. Góð aðferð við staðarval er að nota Google Earth.
Nánari upplýsingar og umsókn um leyfi er sótt með rafrænum skilríkum á Ísland.is